Fótbolti

Rossi fékk góðar fréttir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rossi meiddist í upphafi mánaðarins.
Rossi meiddist í upphafi mánaðarins. Vísir/Getty
Giuseppe Rossi þarf ekki að fara í aðgerð vegna hnémeiðsla sinna og gæti því náð HM í Brasilíu í sumar.

Þetta eru góðar fréttir fyrir Fiorentina og ítalska landsliðið. Hið versta var óttast þegar að Rossi meiddist á hægra hné á dögunum en hann hefur tvívegis slitið krossband í hnénu.

Rossi fór í síðustu viku til Richard Steadman, þekkts sérfræðings í Bandaríkjunum, sem sagði að aðgerðar væri ekki þörf.

„Rannsóknir sýndu að hnéð sýnir góðan stöðugleika eftir meiðslin,“ sagði í yfirlýsingu Fiorentina. Rossi verður áfram í endurhæfingu næstu tvo mánuðina að minnsta kosti en gæti byrjað að æfa að nýju eftir það.

Rossi er markahæsti leikmaður ítölsku úrvalsdeildarinnar með fjórtán mörk og gæti snúið aftur á völlinn í lok tímabilsins.


Tengdar fréttir

Rossi meiddist á hné í þriðja sinn

Þrátt fyrir að hafa nælt í stigin þrjú varð Fiorentina fyrir áfalli í 1-0 sigri gegn Livorno. Giuseppe Rossi, markahæsti leikmaður Serie A meiddist á hægra hné þegar rúmlega sjötíu mínútur voru búnar af leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×