Skoðun

Áríðandi skilaboð til ferðamanna!

Margrét Júlía Rafnsdóttir skrifar
Áríðandi skilaboð til ferðamanna er áletrun á póstkorti sem Barnaheill - Save the Children Íslandi hefur gefið út og er dreift til ferðamanna. Heilsugæslan hefur lagt verkefninu lið með því að hafa kortið sýnilegt og afhenda það þeim sem leita til Heilsugæslunnar áður en þeir leggja í ferðalög til fjarlægra landa s.s. til Asíu.



Á hinni hlið póstkortsins er eftirfarandi texti:



Ágæti ferðamaður,

Víða geta ferðamenn átt von á að vera boðið kynlíf með

barni. Jafnvel þótt barnið hafi frumkvæði að samskiptunum

eða samþykki þátttöku er ávallt um kynferðisofbeldi gegn

barninu að ræða.

Öll heimsins börn eiga rétt á vernd gegn hvers kyns ofbeldi,

svo sem þátttöku í hvers konar kynferðislegum athöfnum,

vændi eða klámi. Börn eru einstaklingar undir 18 ára aldri.

Samkvæmt íslenskum lögum geta þeir sem verða uppvísir

af kynferðislegu samneyti við barn í öðru landi, verið

dæmdir fyrir það á Íslandi, þótt slíkt sé ekki ólöglegt í

landinu þar sem brotið er framið.

Tilkynntu til ferðaskrifstofunnar, fararstjóra eða lögreglu ef

þú hefur grun um að barn sé beitt kynferðisofbeldi. Þannig

leggur þú þitt af mörkum til að vernda barnið gegn ofbeldinu

og koma því til hjálpar.

Með dreifingu póstkortsins vilja Barnaheill – Save the Children á Íslandi vekja athygli ferðamanna á því að vegna fátæktar og erfiðra aðstæðna, leiðast 1-2 milljónir barna í heiminum út í vændi á hverju ári og eru þau gjarnan fórnarlömb mansals.

Þau eru í raun beitt kynferðisofbeldi gegn gjaldi, til dæmis af ferðamönnum. Þeir ferðamenn sem borga börnum fyrir kynlíf, þ.e. fyrir að fá að beita þau ofbeldi, eru að nýta sér neyð barnanna. Flestir ferðamannanna eru frá Evrópu og Bandaríkjunum og ferðast gjarnan til landa þar sem börn búa við fátækt og erfiðar aðstæður.

Mikilvægt er að ferðamenn átti sig á því að einstaklingar teljast börn til 18 ára aldurs. Barnaheill hvetja því ferðamenn að líta ekki undan ef þeir sjá einhvers konar kynferðisleg samskipti fullorðins einstaklings við barn, heldur tilkynna það til ferðaskrifstofunnar, fararstjóra eða lögreglu.

Einnig er hægt að tilkynna í gegn um ábendingalínu

Barnaheilla - Save the Children á Íslandi

https://www.barnaheill.is/TilkynnaologlegtefniReportillegalcontent/.



Heilsugæslustöðvar og aðrir aðilar geta pantað póstkortin með því að senda tölvupóst á barnaheill@barnaheill.is eða hringja í síma 5535900.

Verum ábyrgir ferðamenn og líðum ekki að börn séu beitt ofbeldi af hálfu ferðamanna.




Skoðun

Sjá meira


×