Það þýðir að ríki heims eru líklegri til að forðast misheppnaðar innrásir á borð við innrásirnar í Írak, Afganistan og Víetnam. Á móti kemur að alþjóðasamfélagið er líklegra til að halda að sér höndunum þó þjóðarmorð á borð við það sem átti sér stað í Rúanda eigi sér stað fyrir allra augum.
Í fyrirlestri Cottey í Norræna húsinu í gær sagði hann tíunda áratug síðustu aldar hafa einkennst af þeirri stefnu alþjóðasamfélagsins að reyna að stöðva átök í ríkjum á borð við Sómalíu, Haítí, Bosníu, Kósóvó og Austur-Timor.

Hann sagði þó loftárásir Bandaríkjanna, Breta, Frakka og Kanadamanna á Líbíu árið 2011 stílbrot á þessari þróun. Það skýrist af því að Líbíustjórn hafi verið alræmd, loftvarnir landsins lélegar og mikill þrýstingur á Vesturveldin að styðja við bakið á þeim sem boðuðu arabískt vor í Norður-Afríku.
Ef innrásirnar í Írak og Afganistan eru öfgarnar í eina áttina eru öfgarnar í hina áttina alger skortur á hernaðaríhlutun í borgarastyrjöldina í Sýrlandi. Þar hafa yfir hundruð þúsund látið lífið í borgarastyrjöld og milljónir hrakist á flótta án þess að alþjóðasamfélagið hafi reynt að skakka í leikinn með vopnavaldi.
Ólíklegt er að önnur ríki taki upp þráðinn ef Bandaríkin og bandalagsríki þeirra hætta hernaðaríhlutunum að mestu, segir Cottey. Ríki á borð við Kína, Indland og Brasilíu hafi sýnt að þau fari mjög varlega í að beita önnur ríki hervaldi.
Cottey telur líklegt að vilji ríki heims bregðast með einhverjum hætti við ástandi sem upp kunni að koma verði það gert á minni skala en hingað til. Mögulega verði íhlutanir í Sómalíu og Kongó fyrirmynd, en enn sé ekki komið í ljós hver raunvörulegur ávinningur í þeim ríkjum verði.