Leikurinn var gefinn út klukkan tólf á hádegi á fimmtudag, í því 131 landi sem hafa aðgang að vefverslun Apple. Að meðaltali hafa 120 þúsund manns halað leiknum niður dag hvern síðan hann kom út. Leikurinn er vinsælasti spurningaleikurinn í vefverslun Apple í 30 löndum og vinsælasta fræðsluforritið í 16 löndum. Að sögn Þorsteins var megináherslan þó strax sett á Bandaríkjamarkað.
„Langmesta samkeppnin á smáforritamarkaðnum er í flokki ókeypis smáforrita í Bandaríkjunum. Á þann markað koma um þúsund ný forrit dag hvern. Við leggjum mesta áherslu á þann markað.“ Strax á fyrsta degi komst Quiz Up í 26. sæti í þeim flokki. Á föstudeginum tók leikurinn svo risastökk upp á við og varð fjórða vinsælasta ókeypis smáforrit á Bandaríkjamarkaði. Síðan þá hefur leikurinn farið upp um eitt sæti og er nú í þriðja sæti.
Sólarhringsvakt hefur verið hjá Plain Vanilla síðan leikurinn fór á markað. „Við erum búnir að vera meira og minna í vinnunni. Tímamismunurinn á Íslandi og Bandaríkjunum gerir það að verkum að við þurfum að vera á staðnum og vakta hlutina. En þetta er svo spennandi. Við gerum þetta með bros á vör,“ segir Þorsteinn. Hann segir helgina hafa verið hreint ótrúlega og sett hlutina í nýtt samhengi. „Þetta er auðvitað algjört ævintýri. Nú vita allir hverjir við erum í Bandaríkjunum. Það er svolítið sérstakt.“


