Innlent

Vetrarfærð í öllum landshlutum - víðast hvar nokkur hálka

Mynd úr safni
Vetrarfærð er í öllum landshlutum, víðast hvar nokkur hálka eða snjóþekja. Flughált er á kafla í Ísafjarðardjúpi.

Þá eru hálkublettir á Reykjanesbraut og Suðurnesjum en hálka á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum. Snjóþekja eða hálka er annars á velflestum vegum á Suðurlandi en þó er þæfingsfærð á Landvegi og á vegum þar í kring.

Á Vesturlandi og Vestfjörðum er víðast hálka eða snjóþekja en þæfingsfærð er á nokkrum leiðum í uppsveitum Borgarfjarðar. Í Ísafjarðardjúpi er flughálka frá Skötufirði og í Vatnsfjörð.

Hálka er á flestum vegum á Norðurlandi og Austurlandi en á Austfjörðum og með suðausturströndinni eru þó víðast aðeins hálkublettir. Það er hálka á Öxi en Breiðdalsheiði er ófær.

Verið er að endurnýja rafkerfi í Múlagöngum og því má búast við umferðartöfum þar frá klukkan níu á kvöldin til sex að morgni. Vegfarendur eru beðnir að gæta varúðar og virða hraðatakmarkanir meðan á framkvæmdum stendur.

Þá vara Vegagerðin og Náttúrustofa Austurlands vegfarendur við umferð hreindýra á Austur- og Suðausturlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×