Keflvíkingurinn Arnór Ingi Traustason heldur til Svíþjóðar á mánudaginn þar sem hann mun skrifa undir samning við IFK Norrköping. Víkurfréttir greina frá þessu.
Arnór Ingvi var valinn efnilegasti leikmaður Pepsi-deildar karla í sumar en hann hefur verið lykilmaður í liði Keflavíkur undanfarin þrjú tímabil. Hann spilaði með Sandnes Ulf í Noregi hluta úr tímabilinu í fyrra.
„Þetta eru frábærar aðstæður og vel haldið utan um klúbbinn. Það hef ég heyrt og skynjaði það þegar ég var þarna úti,“ sagði Arnór í samtali við Víkurfréttir.
Norrköping situr í 9. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar þegar tveimur umferðum er ólokið. Þeir eru vanir góðu af Íslendingum en Gunnar Heiðar Þorvaldsson raðaði inn mörkum fyrir liðið þar til hann var seldur til Tyrklands í sumar.

