Í umræðum um Drekasvæðið er stundum spurt: Hversvegna ekki að leita nær Íslandi? Sú leit er raunar þegar hafin. Skip frá fyrirtækinu Djúptækni, Kafari AK, hefur nú haust farið í tvo leiðangra á vegum Orkustofnunar til að afla borkjarna af hafsbotni á tuttugu stöðum í flóanum.

Þórarinn Sveinn Arnarson, verkefnisstjóri olíuleitar hjá Orkustofnun, stýrir rannsókninni. Þegar hann var spurður um hvort líkur væru á að finna þarna nýtanlegar kolvetnisauðlindir svaraði hann að þeir teldu mögulegt að finna þarna gas. Annars væru þeir ekki að þessum borunum.
Forystumenn í Þingeyjarsýslum hafa lengi þrýst á slíkar rannsóknir, sérstaklega eftir að olíugas fannst í Öxarfirði fyrir aldarfjórðungi. Jón Grímsson, vélstjóri á Kópaskeri og bæjarfulltrúi í Norðurþingi, segir að þegar verið var að bora á söndunum í Öxarfirði eftir heitu vatni árið 1988 hafi komið í ljós það sem jarðfræðingar kalla olíugas. Slíkt gas komi hvergi upp nema þar sem olía sé undir.

Þórarinn Sveinn Arnarson segir að næsta skref sé að senda borkjarnasýnin til greiningar í Noregi. Nánari rannsóknir þurfi til að hægt sé að kynna þetta fyrir olíufélögum og segir hann þetta mjög spennandi.
Ítarlega verður fjallað um verkefnið í þættinum „Um land allt" á Stöð 2 annaðkvöld, á mánudagskvöld.