Edda er önnur leikjahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi og lék sinn síðasta leik með Val gegn Selfossi á laugardaginn. Þar skoraði miðjumaðurinn eitt mark í 4-0 sigri liðsins sem tryggði sér annað sætið í Pepsi-deildinni.
Leikmaðurinn hefur verið að glíma við meiðsli í hné og tekur því þessa ákvörðun.
„Já, ég er hætt, þetta er orðið gott. Ég elska fótbolta og væri alveg til í að halda áfram en til þess þyrfti ég að fá einhvern kraftaverkalækni til að laga á mér hnéð. Ég hef verið í veseni með það í tvö ár, mér hefur tekist að spila mest allan tímann, en þyrfti að gera mikið til að halda mér áfram í góðri æfingu," sagði Edda við mbl.is.
„Ég er bara sátt við þessa ákvörðun, þetta er góður tími til að draga sig í hlé. Ég var bara 14 ára þegar ég spilaði fyrst með meistaraflokki, þetta er því orðið 21 ár þar, sem er ágætt. Ég spilaði í Bandaríkjunum, Danmörku, Svíþjóð og Englandi og er sátt við minn feril og að hætta núna," sagði Edda við mbl.is.
Á sínum ferli lék Edda með KR, Breiðabliki, Örebro, Chelsea og að lokum Val.
Edda á að baki 103 landsleiki fyrir Íslands hönd en leikmaðurinn var ekki valinn í landsliðið sem tók þátt á Evrópumótinu í Svíþjóð í sumar.
„Ætli ég hjálpi ekki eitthvað til með styrktaræfingar hjá Valsliðinu í vetur og svo fer ég örugglega út í þjálfun á einhverjum tímapunkti. Ég er allavega búin með UEFA-B prófið en þarf að bæta meiru við. Það hefur svo sem verið haft samband við mig varðandi þjálfun á síðustu árum en ég er ekki með nein tilboð eða farin að huga að slíku af neinni alvöru ennþá," sagði Edda Garðarsdóttir.
Markvörðurinn Þóra B. Helgadóttir sendir Eddu kveðju á Twitter sem má sjá hér að neðan.
@eddagardars sorg í hjarta mín kæra en til hamingju með stórkoslegan feril. Ég á eftir að sakna þín svo mikið #legend
— Thora Helgadottir (@thorahelga) September 16, 2013