KR og ÍA, tvö af stórveldum íslenskrar kvennaknattspyrnu á árum áður, mætast í ár í úrslitakeppni 1. deildar kvenna en í boði er sæti í Pepsi-deild kvenna á næstu leiktíð.
KR hefur sex sinnum orðið Íslandsmeistari í kvennaflokki (síðast 2003) en Vesturbæjarliðið féll úr Pepsi-deildinni fyrir ári síðan. ÍA varð þrisvar sinnum Íslandsmeistari kvenna á sínum tíma (síðast 1987) en hefur ekki spilað í efstu deild í átta ár.
ÍA og KR mætast í tveimur leikjum í undanúrslitum 1. deildar kvenna. Fyrri leikurinn verður í Akraneshöllinni á morgun laugardag og hefst kl. 14 en sá seinni á KR-velli þriðjudaginn 3. september og hefst kl. 17:30.
Félagið sem sigrar samanlagt í leikjunum tveimur leikur í Pepsi-deildinni á næsta ári. Það leikur einnig til úrslita við Fylki eða Grindavík laugardaginn 7. september.
Fylkir og Grindavík mætast í hinum undanúrslitaleikjunum. Fyrri leikurinn er á Grindavíkurvelli á morgun klukkan 16.00 en sá síðasti á Fylkisvelli þriðjudaginn 3. september klukkan 17.30.
