Fótbolti

Mourinho reiddist á blaðamannafundi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho.
Jose Mourinho. Mynd/NordicPhotos/Getty
Jose Mourinho og Pep Guardiola háðu hatramt einvígi þegar þeir þjálfuðu Real Madrid og Barcelona á sínum tíma en Mourinho reyndi þá öll brögðin í bókinni til að fella Barcelona af pallinum. Félagarnir mætast aftur á morgun þegar lið þeirra, Bayern München og Chelsea, spila um Ofurbikar Evrópu en það er árlegur leikur milli Evrópumeistaranna frá síðasta tímabili.

Það gekk oftast illa hjá lærisveinum Mourinho á móti liði Guardiola og tölfræðin er Portúgalanum því ekki hagstæð. Það fauk síðan í hann þegar blaðamaður skellti því framan í hann á blaðamannafundi í dag að Mourinho hafi aðeins unnið 3 af 15 leikjum sínum á móti Pep Guardiola.

„Þessi tölfræði þín er mjög röng," svaraði Jose Mourinho reiður. „Farðu og skoðaðu hvað gerðist þegar ég var með Inter í undanúrslitum Meistaradeildarinnar, þegar ég var í bikarúrslitaleiknum á Spáni og þegar við mættum þeim í spænska ofurbikarnum," bætti Mourinho við.

„Kannski er þetta rétt hjá þér en það skiptir mig engu máli. Þetta snýst ekki um okkur tvo því þetta snýst um Chelsea og Bayern. Ef þú vilt spyrja út í Chelsea þá er ég hér til klukkan fjögur. Ef þú ætlar hinsvegar að spyrja spurninga um Real eða Barcelona þá er ég ekki hér," sagði Jose Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×