Landsliðsþjálfari Breta í sundi hefur farið þess á leit að úrtökumót fyrir landslið Breta fari ekki lengur fram í lauginni Ponds Forge í Sheffield.
Laugin, sem tekin var í notkun árið 1991, var notuð á úrtökumótin fyrir Ólympíuleikana árið 2004 og 2008 sem og heimsmeistaramótin 2009 og aftur nú 2013.
Landsliðsþjálfarinn, Bill Furniss, segir í viðtali við BBC að hann vilji að úrtökumótin fari fram í öðrum laugum landsins.
„Ég vil frekar nota hægari laugar. Þessi laug er hröð," segir Furniss. Bent hefur verið á að dýpt laugarinnar og súrfefnis- og ósonmagn í vatninu geri sundfólki kleyft að synda hraðar.
Stephen Parry, bronsverðlaunahafi í 200 metra flugsundi í Aþenu 2004, segir að Ponds Forge laugin sé fórnarlamb eigin gæða.
„Sundfólkið okkar fer þangað og nær frábærum tímum. Þeim tekst svo ekki að endurtaka leikinn í öðrum sundlaugum síðar á árinu. Því finnst laugin því vinna gegn þeim," segir Parry. Hann segir auðveldara fyrir fólk að fljóta í lauginni sem hjálpi sundköppunum að synda hraðar.
Richard Apps, framkvæmdastjóri laugarinnar, segir að laugin muni áfram verða vettvangur stórra móta á næstu árum.
„Sheffield hefur verið og verður áfram með eina bestu sundaðstöðu í landinu. Laugin hefur alltaf þótt hröð enda hafa fjölmörg landsmet og heimsmet verið sett í lauginni."
Sundþjálfari ósáttur við vatnið
Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
