Valskonur eru komnar upp í annað sætið í Pepsi-deild kvenna eftir 2-1 sigur á Breiðabliki á Vodafone-vellinum í kvöld en leikurinn var í 11. umferð deildarinnar.
Arnþór Birkisson, ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins, var á leiknum og náði þessum skemmtilegu myndum sem má finna hér fyrir ofan.
Blikakonur voru sjálfum sér verstar í þessum leik á Hlíðarenda því þær klúðruðu víti í stöðunni 0-0 og skoruðu síðan tvö sjálfsmörk með fjögurra mínútna millibili um miðjan seinni hálfleik.
Valskonur hafa nú unnið sex deildarleiki í röð og þessi sigur dugðaði til að taka annað sætið af Blikum.
Þórdís María Aikman varði víti frá Rakel Hönnudóttur á 54. mínútu leiksins og skömmu síðar hafnaði boltinn í slá Valsmarksins áður en Edda Garðarsdóttir náði að bjarga á marklínunni.
Ragna Björg Einarsdóttir skoraði fyrra sjálfsmark Blika á 66. mínútu þegar hún stýrði inn skoti Dóru Maríu Lárusdóttur sem var að stefna framhjá.
Seinna sjálfsmarkið skoraði Lilja Dögg Valþórsdóttir á 70. mínútu en hún setti þá aukaspyrnu Eddu Garðadóttur í eigið mark eftir pressu frá Elínu Mettu Jensen. Elín Metta fagnaði en boltinn fór af Lilju Dögg og í markið.
Greta Mjöll Samúelsdóttir náði að laga stöðuna undir lokin þegar hún skoraði beint úr hornspyrnu.
