Handbolti

Hafa margsannað að þær eru bestar í heimi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Rakel Dögg Bragadóttir í heimaleiknum gegn Tékkum á dögunum.
Rakel Dögg Bragadóttir í heimaleiknum gegn Tékkum á dögunum. Mynd/Vilhelm
Rakel Dögg Bragadóttir segir íslenska kvennalandsliðið þurfa að hafa gætur á hraðaupphlaupum Norðmanna í landsleik þjóðanna í Laugardalshöll í dag.

„Það ótrúlega spennandi að mæta þessu liði og frábært fyrir íslenskan handbolta að þær komi hingað í æfingaferð og vilji spila tvo leiki gegn okkur," segir Rakel Dögg Bragadóttir fyrirliði kvennalandsliðs Íslands í handbolta.

Noregur er ríkjandi heims- og Ólympíumeistari þannig að við ramman reip verður að draga fyrir stelpurnar okkar í dag.

„Við förum í alla leiki til að vinna en við þurfum að eiga algjöran toppleik til að ná að standa í þeim. Þetta er besta lið í heimi og þær hafa margsannað það," segir Rakel Dögg.

Íslenska landsliðið náði ekki að tryggja sér farseðilinn í lokakeppni HM í Serbíu í desember. Liðið beið lakari hlut í tveimur leikjum gegn Tékkum.

„Það var auðvitað ákveðið áfall enda stóðu vonir til þess að standa okkur betur og fara áfram. Það var þungt og erfitt. Við höfum hisst nokkrum sinnum, farið yfir stöðuna og klárar í leikinn á eftir."

Aðspurð hvað íslensku stelpurnar þurfi að passa sérstaklega varðandi norska liðið segir Rakel:

„Við verðum að passa hraðaupphlaupin þeirra. Þær spila rosalega sterka vörn og eru með góðan markvörð. Það er eitthvað sem við þurfum að einbeita okkur að."

Leikur Íslands og Noregs hefst klukkan 16 og verður í beinni textalýsingu hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×