KF skellti KA 4-1 í Tröllaskagaslag á Ólafsfjarðarvelli í dag en liðin mættust þá í 3. umferð 1. deildar karla í fótbolta. KF, Knattspyrnufélag Fjallabyggðar, lenti undir en svaraði með fjórum mörkum.
Þetta var fyrsta tap KA í 1. deildinni undir stjórn Bjarna Jóhannssonar en liðið náði í fjögur stig af sex mögulegum í fyrstu tveimur umferðunum.
KF var hinsvegar að vinna sinn fyrsta sigur í deildinni því liðið tapaði fyrir Fjölni í 1. umferð en gerði svo 1-1 jafntefli við Leikni Reykjavík í síðasta leik.
Hallgrímur Mar Steingrímsson kom KA í 1-0 með marki úr vítaspyrnu á 33. mínútu en Jón Björgvin Kristjánsson jafnaði metin tveimur mínútum síðar.
Páll Sindri Einarsson, Milos Glogovac og Halldór Logi Hilmarsson skoruðu síðan mörk KF í seinni hálfleiknum.
Upplýsingar um markaskorara eru fengnar frá vefsíðunni úrslit.net.
