Roberto Mancini, stjóri Manchester City, segist ætla að styðja Manchester United til dáða í Meistaradeild Evrópu þetta tímabilið.
City er nú tíu stigum á eftir United sem situr á toppi ensku úrvalsdeildarinnar. Liðið getur minnkað muninn í sjö stig með sigri á Liverpool síðar í dag.
United mætir Real Madrid í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu síðar í mánuðinum og Mancini segist ætla að styðja granna sína.
„Auðvitað mun ég styðja United. Ég mun jafnvel fara á leikinn með lítinn rauðan og hvítan fána," sagði Mancini í léttum dúr.
City féll úr leik í Meistaradeildinni en liðið var til að mynda í riðli með Real Madrid.
„Það tóku mikið á að spila gegn Real og ég held að þetta verði erfitt fyrir United líka. Real er ásamt Barcelona besta lið heims í dag."
„Ég held að þetta verði aðeins erfiðara fyrir United í febrúar og mars en þeir mánuðir skipta miklu fyrir titilbaráttuna í deildinni hér heima. Það eru enn fjórtán leikir eftir og allt getur enn gerst."
