Gaspur hefur afleiðingar Ólafur Þ. Stephensen skrifar 29. nóvember 2012 08:00 Skuldabréfamarkaðurinn komst í uppnám í fyrradag og lokað var fyrir viðskipti með íbúðabréf Íbúðalánasjóðs í Kauphöll Íslands. Ástæðan voru ummæli Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, formanns velferðarnefndar Alþingis, í viðtali við fréttavef Bloomberg, þar sem hún sagði nauðsynlegt að endursemja um skilmála íbúðabréfanna þannig að þau væru uppgreiðanleg og afnema ríkisábyrgð á sjóðnum. Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, gagnrýndi Sigríði harðlega fyrir ummælin. Þau birtust opinberlega þegar nokkrir klukkutímar voru í boðaða tilkynningu stjórnvalda um aðgerðir til að leysa úr vanda Íbúðalánasjóðs. Út frá sjónarmiðum um jafnræði aðila á markaði og jafnan aðgang þeirra að upplýsingum lokaði Kauphöllin fyrir viðskipti með íbúðabréfin. Sigríður Ingibjörg vill þó ekkert kannast við að ummælin kunni að hafa verið óheppileg. Hún segir að vandi ÍLS verði ekki minni þótt hann sé ekki ræddur. Áhættan í rekstri sjóðsins sé öllum kunn, líka þeim sem stunda viðskipti á markaði. Þetta er út af fyrir sig hvort tveggja rétt. Og enginn getur bannað þingmönnum að tjá skoðanir sínar. Viðbrögð þingmannsins benda hins vegar til þess að hún skilji ekki eða vilji ekki skilja þær sérstöku aðstæður sem voru í þessu máli og hvers vegna tímasetning ummælanna var alveg fráleit. Eigendur íbúðabréfa, sem eru til dæmis lífeyrissjóðir og einstaklingar sem hafa fest sparnað sinn í skuldabréfasjóðum, þekkja auðvitað vel áhættuna í rekstri ÍLS. Þeim var hins vegar ekki kunnugt hvernig ríkisstjórnin hygðist bregðast við vandanum. Fjárfestar biðu með talsverðri eftirvæntingu eftir boðaðri tilkynningu um viðbrögð stjórnvalda klukkan tvö í fyrradag. Þegar formaður velferðarnefndar Alþingis, sem fer með málefni sjóðsins og menn skyldu ætla að væri inni í málinu, tilgreinir í alþjóðlegum fjölmiðli hvaða leiðir eigi að fara, er skiljanlegt að mönnum bregði í brún og telji að þetta hljóti að vera inntakið í tilkynningunni. Sem það var svo reyndar alls ekki. Þegar svo bætist við að báðar tillögur Sigríðar Ingibjargar fela í sér að breyta reglunum eftir á (eins og er að verða eitt helzta einkenni þessarar ríkisstjórnar í augum fjárfesta), flytja vanda ÍLS yfir á fjárfesta og gera íbúðabréfin mun síðri fjárfestingarkost, er ekkert skrýtið að uppnám hafi orðið á markaðnum. Þingmenn eru vanir að geta gasprað um hin og þessi mál án þess að þeir séu nokkurn tímann kallaðir til ábyrgðar. Stundum vill hins vegar svo til að þeir eru í þannig stöðu, að gasprið hefur afleiðingar. Þetta er svoleiðis mál. Nú gerir ekki nokkur maður ráð fyrir að íslenzkur stjórnmálamaður viðurkenni mistök samdægurs. Það hefur að minnsta kosti ekki gerzt svo menn muni. Einhvern tímann fljótlega væri samt sniðugt að nefndarformaðurinn viðurkenndi að henni hafi orðið á í messunni, ekki sízt svo aðrir geti lært af því. Páll Harðarson boðar að Kauphöllin fari yfir það með stjórnmálamönnum að þeir gæti orða sinna þegar þeir fjalla um skráð verðbréf. Það virðist engin vanþörf á því námskeiði. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Er þetta alvöru? Bjarni Karlsson Skoðun Skilaboð hátíðarinnar Skúli S. Ólafsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Nýr kafli í sögu ESB Michael Mann Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun
Skuldabréfamarkaðurinn komst í uppnám í fyrradag og lokað var fyrir viðskipti með íbúðabréf Íbúðalánasjóðs í Kauphöll Íslands. Ástæðan voru ummæli Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, formanns velferðarnefndar Alþingis, í viðtali við fréttavef Bloomberg, þar sem hún sagði nauðsynlegt að endursemja um skilmála íbúðabréfanna þannig að þau væru uppgreiðanleg og afnema ríkisábyrgð á sjóðnum. Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, gagnrýndi Sigríði harðlega fyrir ummælin. Þau birtust opinberlega þegar nokkrir klukkutímar voru í boðaða tilkynningu stjórnvalda um aðgerðir til að leysa úr vanda Íbúðalánasjóðs. Út frá sjónarmiðum um jafnræði aðila á markaði og jafnan aðgang þeirra að upplýsingum lokaði Kauphöllin fyrir viðskipti með íbúðabréfin. Sigríður Ingibjörg vill þó ekkert kannast við að ummælin kunni að hafa verið óheppileg. Hún segir að vandi ÍLS verði ekki minni þótt hann sé ekki ræddur. Áhættan í rekstri sjóðsins sé öllum kunn, líka þeim sem stunda viðskipti á markaði. Þetta er út af fyrir sig hvort tveggja rétt. Og enginn getur bannað þingmönnum að tjá skoðanir sínar. Viðbrögð þingmannsins benda hins vegar til þess að hún skilji ekki eða vilji ekki skilja þær sérstöku aðstæður sem voru í þessu máli og hvers vegna tímasetning ummælanna var alveg fráleit. Eigendur íbúðabréfa, sem eru til dæmis lífeyrissjóðir og einstaklingar sem hafa fest sparnað sinn í skuldabréfasjóðum, þekkja auðvitað vel áhættuna í rekstri ÍLS. Þeim var hins vegar ekki kunnugt hvernig ríkisstjórnin hygðist bregðast við vandanum. Fjárfestar biðu með talsverðri eftirvæntingu eftir boðaðri tilkynningu um viðbrögð stjórnvalda klukkan tvö í fyrradag. Þegar formaður velferðarnefndar Alþingis, sem fer með málefni sjóðsins og menn skyldu ætla að væri inni í málinu, tilgreinir í alþjóðlegum fjölmiðli hvaða leiðir eigi að fara, er skiljanlegt að mönnum bregði í brún og telji að þetta hljóti að vera inntakið í tilkynningunni. Sem það var svo reyndar alls ekki. Þegar svo bætist við að báðar tillögur Sigríðar Ingibjargar fela í sér að breyta reglunum eftir á (eins og er að verða eitt helzta einkenni þessarar ríkisstjórnar í augum fjárfesta), flytja vanda ÍLS yfir á fjárfesta og gera íbúðabréfin mun síðri fjárfestingarkost, er ekkert skrýtið að uppnám hafi orðið á markaðnum. Þingmenn eru vanir að geta gasprað um hin og þessi mál án þess að þeir séu nokkurn tímann kallaðir til ábyrgðar. Stundum vill hins vegar svo til að þeir eru í þannig stöðu, að gasprið hefur afleiðingar. Þetta er svoleiðis mál. Nú gerir ekki nokkur maður ráð fyrir að íslenzkur stjórnmálamaður viðurkenni mistök samdægurs. Það hefur að minnsta kosti ekki gerzt svo menn muni. Einhvern tímann fljótlega væri samt sniðugt að nefndarformaðurinn viðurkenndi að henni hafi orðið á í messunni, ekki sízt svo aðrir geti lært af því. Páll Harðarson boðar að Kauphöllin fari yfir það með stjórnmálamönnum að þeir gæti orða sinna þegar þeir fjalla um skráð verðbréf. Það virðist engin vanþörf á því námskeiði.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun