Hljómsveitin The Charlies sendi frá sér nýtt tónlistarmyndband í gær við lagið Hello Luv. Lagið er eftir lagahöfundinn Jukebox en sá samdi einnig lagið Whip My Hair með Willow Smith.
Steinunn Camilla segir tónlist sveitarinnar hafa þróast út í svonefnt Rhythm'n Pop og er Hello Luv í þeim stíl. Myndbandið er eftir leikstjórann Michael Clifford og fengu The Charlies þrjá vana dansara til að koma fram í því með sér.
„Michael er fáránlega fær ljósmyndari og leikstjóri. Dansararnir sem koma fram í myndbandinu heita Jennifer Nappi, William Jay og Clarys Biagi og hún hefur meðal annars verið bakdansari hjá Beyonce," segir Steinunn og bætir við: „Lagið er svo eftir hinn frábæra lagahöfund og upptökustjóra Jukebox. Textinn talar sínu máli og við hvetjum fólk til að hlusta vel á hann."
Spurð út í kostnaðinn við gerð myndbandsins segir Steinunn hann velta á ýmsu. „Kostnaðurinn við myndböndin er eins mismunandi og myndböndin eru mörg."
Hello Luv verður eitt þeirra laga er verða á svokallaðri „mixtape"-plötu sem kemur út í nóvember. Þangað til vinna stúlkurnar hörðum höndum við að leggja lokahönd á plötuna og undirbúa tökur fyrir næsta tónlistarmyndband. - sm
