Svavar Knútur hefur sent frá sér sína þriðju sólóplötu, Ölduslóð. Á henni eru tíu frumsamin lög sem fjalla á einn eða annan hátt um dásemdir hversdagsleikans og margbreytileika tilverunnar.
Á plötunni koma fram með Svavari tékkneska söngkonan Markéta Irglová, Helgi Hrafn Jónsson, Pétur Grétarsson, Kristín Lárusdóttir og nokkrir bakraddasöngvarar. Platan er í rökréttu framhaldi af fyrstu sólóplötu Svavars, Kvöldvöku, sem kom út 2009. Ölduslóð kemur út samtímis hjá Dimmu útgáfu og Beste! Unterhaltung í Þýskalandi. Eins og á fyrri sólóplötum Svavars Knúts var myndskreyting umslagsins í höndum dóttur hans, Dagbjartar Lilju.
Útgáfutónleikar vegna Ölduslóðar verða í Fríkirkjunni í Reykjavík í kvöld klukkan 20.30. Svavar Knútur leggur af stað í tónleikaferð í lok september um Þýskaland, Danmörku, Sviss og Svíþjóð til að kynna plötuna.
Ölduslóð frá Svavari
