Atlaga að tilkalli Guðmundur Andri Thorsson skrifar 20. ágúst 2012 11:00 Atburðir sögunnar gerðust óhjákvæmilega – en var það óhjákvæmilegt að þeir gerðust? Örlagaborgin eftir Einar Má Jónsson leitar svara við þeirri spurningu hví farið hafi sem fór í efnahagsmálum heimsins – hún er um Hrunið og þá hugmyndafræði sem til þess leiddi. Og grefur djúpt. Í bókinni fæst Einar Már meðal annars við spurninguna um óhjákvæmileikann og þar er dregið í efa eitt og annað sem haft hefur verið fyrir satt í almennri umræðu, eins og höfundar er von og vísa. Sem sé: að við búum í hinum besta heimi allra heima, niðurskipan hlutanna sé hin rétta og náttúrulega, þjóðfélagsgerðin sé niðurstaða óhjákvæmilegrar framþróunar eftir skorðaðri braut fremur en afleiðing af tilviljunum, ákvörðunum og möndli manna sem voru í þeirri stöðu að hafa áhrif á gang sögunnar og bundust samtökum um hagsmuni sína. Einar Már leikur sér með hugmyndir: Hvað ef menn hefðu komið auga á ísjakann nokkru fyrr um borð í Titanic? Hvað ef faðir Adolfs hefði ekki tekið sér nafnið Hitler heldur heitið áfram Schickelgruber? Hefði verið hægt að fá fólk til að æpa: Heil Schickelgruber!? Hvað ef sígaunakonu hefði lánast að ræna barnungum Adam Smith, eins og hún mun hafa reynt, og hann kannski orðið frægur og dáður fiðlari með yfirskegg en aldrei skrifað bókina Auðlegð þjóðanna og þar með lagt grundvöllinn að svonefndri frjálshyggju, reiðareksstefnunni í efnahagsmálum sem fylgt var hér og annars staðar fram að Hruni? Hefði Auðlegð þjóðanna þá verið rituð af einhverjum öðrum? Nei, segir Einar Már, til að rita slíka bók þurfti þá sérstöku blöndu af skapgerð og lífsreynslu, fordómum og þekkingu, sem Adam Smith hafði til að bera. Hin óumræðilega ÖrlagaborgTil að skýra þetta útfærir Einar Már fræga hugmynd dr. Altungu (sem við þekkjum úr Birtingi Voltaires) um Örlagahöllina sívaxandi og skapar heila Örlagaborg sem hefur að geyma í síkvikum hverfum sínum allt sem hefur gerst, allt sem er til og á eftir að gerast og ekki aðeins það heldur og allt sem hefði getað gerst: þar siglir Titanic sína leið ef skipið hefði aldrei rekist á jakann og þar er Adolf Schickelgruber tuðandi smámenni; borgin er sífellt rísandi, óendanleg: og ekki nóg með það heldur eru borgirnar þrjár og hver þeirra smíðuð til að skýra þann sérstaka veruleika sem höfundur vill að við sjáum fyrir okkur hverju sinni. Þessi sýn á veruleikann og verðandina er óumræðileg og leiftrandi. Almennt virðist manni að það sé mikill ljósagangur í hausnum á Einari Má Jónssyni. En það er ekki hlaupið að því að lýsa í nokkrum orðum bók eins og Örlagaborginni; hún er full af orðum. Hún er full af hverfum og byggingum sem birtast í svip en leysast óðara upp fyrir augum okkar; hún er full af hugmyndum sem höfundi er sérlega sýnt um að útmála á skýran og greinargóðan hátt, galgopaskap sem höfundur getur ekki stillt sig um að hafa í frammi, full af andríki og fróðleik – full af sviðsetningum. Þessi bók er algjört bíó. Það er meðal mótsetninganna í Einari Má Jónssyni: hann er íhaldssamur, eins og frægt er af Bréfi hans til Maríu, þar sem hann bölsótaðist yfir þrugli póstmódernismans og efaði stórlega erindi internetsins – en eitthvað í framsetningu þessarar bókar er líka ákaflega nútímalegt. Ekki bara það hvernig hann leyfir sér að tefla saman aðferðum sagnfræðinnar, heimspekinnar, hagfræði, hugmyndasögunnar og bókmenntanna án þess að hirða um að halda þeim aðgreindum eða hemja sína sterku huglægni, heldur ekki síður hitt hversu myndræn bókin er og einkennist af sífelldum sviðsetningum, höfundur er ævinlega að leiða okkur inn í nýjar og nýjar aðstæður þar sem hann útmálar fólk og umhverfi eins og bíómynd væri með nýjustu tölvubrellum. Kirkjufeðurnir sproksettirBókin er þannig full af ólíkindalátum hins uppátækjasama höfundar, sviðsetningum og orðagaldri en megineinkenni hennar er þó mannúðin, samlíðan með manneskjunum, andúð á valdi og reiði yfir ranglæti heimsins og formælendum þess. Örlagaborgin er atlaga að tilkalli til óhjákvæmileikans. Hún er atlaga að tilkalli hinnar svokölluðu klassísku hagfræði til að teljast nokkurs konar náttúruvísindi mannlegrar tilveru; að hagfræðin hafi fundið lögmál um mannlegt samfélag sem sambærileg séu við þau lögmál sem Newton fann og haft er fyrir satt að gilda í náttúrunni. Hann dregur kirkjufeður frjálshyggjunnar sundur og saman í háði svo að vart stendur steinn yfir steini í hugmyndum þeirra. Þau lögmál sem þessir menn töldu sig finna voru ævinlega til stuðnings misskiptingu, stéttaskiptingu, auðsöfnun fárra en allsleysi almúgans. Sú inngróna gáfa sem sérhver maður hefur – samúðin með öðru fólki og löngunin til að deila kjörum með öðrum – er tekin úr sambandi í þessum lögmálum. Lýsingarnar í bókinni á Manchester á tímum iðnbyltingarinnar eru ömurlegri en orð fá lýst og ekki að undra að menn skyldu hverfa af braut reiðareksstefnunnar í efnahagsmálum sem Adam Smith og fylgismenn hans boðuðu. Hitt er ráðgáta sem Einar Már mun fást við í næstu bók hvernig á því getur staðið að þessar firrur skyldu á ný verða alls ráðandi í efnahagsmálum heimsins á seinustu áratugum tuttugustu aldarinnar, svo að allt hrundi í byrjun þeirrar tuttugustu og fyrstu. Í því hverfi Örlagaborgarinnar erum við enn stödd og getum haft áhrif á byggingarnar þar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið „Öllum er fkn drull, haltu kjafti“ Bríet Bragadóttir,Hjördís Lára D. Ingólfsdóttir,Kristjana Anna Dagnýjardóttir Skoðun 27-faldur hagnaður!? Ásthildur Lóa Þórsdóttir Skoðun Hvernig getum við gert Ísland að eftirsóttum stað fyrir barnafjölskyldur? Birgitta Sigurðardóttir Skoðun Laumu risinn í landsframleiðslunni Ása Berglind Hjálmarsdóttir Skoðun Skúffuskýrslan sem lifði af Linda Heiðarsdóttir Skoðun Er barnið sjúkt í sykur? Elísabet Konráðsdóttir,Margrét Sigmundsdóttir Skoðun Hæstvirtur dómsmálaráðherra, við ætlumst til meira af þér Matthías Kormáksson Skoðun Breytum þessari sérhagsmunagæslu Aðalsteinn Leifsson Skoðun Bleiki fíllinn í herberginu Karólína Helga Símonardóttir Skoðun Stúlkur eiga undir högg að sækja í nauðgunarmálum Jörgen Ingimar Hansson Skoðun
Atburðir sögunnar gerðust óhjákvæmilega – en var það óhjákvæmilegt að þeir gerðust? Örlagaborgin eftir Einar Má Jónsson leitar svara við þeirri spurningu hví farið hafi sem fór í efnahagsmálum heimsins – hún er um Hrunið og þá hugmyndafræði sem til þess leiddi. Og grefur djúpt. Í bókinni fæst Einar Már meðal annars við spurninguna um óhjákvæmileikann og þar er dregið í efa eitt og annað sem haft hefur verið fyrir satt í almennri umræðu, eins og höfundar er von og vísa. Sem sé: að við búum í hinum besta heimi allra heima, niðurskipan hlutanna sé hin rétta og náttúrulega, þjóðfélagsgerðin sé niðurstaða óhjákvæmilegrar framþróunar eftir skorðaðri braut fremur en afleiðing af tilviljunum, ákvörðunum og möndli manna sem voru í þeirri stöðu að hafa áhrif á gang sögunnar og bundust samtökum um hagsmuni sína. Einar Már leikur sér með hugmyndir: Hvað ef menn hefðu komið auga á ísjakann nokkru fyrr um borð í Titanic? Hvað ef faðir Adolfs hefði ekki tekið sér nafnið Hitler heldur heitið áfram Schickelgruber? Hefði verið hægt að fá fólk til að æpa: Heil Schickelgruber!? Hvað ef sígaunakonu hefði lánast að ræna barnungum Adam Smith, eins og hún mun hafa reynt, og hann kannski orðið frægur og dáður fiðlari með yfirskegg en aldrei skrifað bókina Auðlegð þjóðanna og þar með lagt grundvöllinn að svonefndri frjálshyggju, reiðareksstefnunni í efnahagsmálum sem fylgt var hér og annars staðar fram að Hruni? Hefði Auðlegð þjóðanna þá verið rituð af einhverjum öðrum? Nei, segir Einar Már, til að rita slíka bók þurfti þá sérstöku blöndu af skapgerð og lífsreynslu, fordómum og þekkingu, sem Adam Smith hafði til að bera. Hin óumræðilega ÖrlagaborgTil að skýra þetta útfærir Einar Már fræga hugmynd dr. Altungu (sem við þekkjum úr Birtingi Voltaires) um Örlagahöllina sívaxandi og skapar heila Örlagaborg sem hefur að geyma í síkvikum hverfum sínum allt sem hefur gerst, allt sem er til og á eftir að gerast og ekki aðeins það heldur og allt sem hefði getað gerst: þar siglir Titanic sína leið ef skipið hefði aldrei rekist á jakann og þar er Adolf Schickelgruber tuðandi smámenni; borgin er sífellt rísandi, óendanleg: og ekki nóg með það heldur eru borgirnar þrjár og hver þeirra smíðuð til að skýra þann sérstaka veruleika sem höfundur vill að við sjáum fyrir okkur hverju sinni. Þessi sýn á veruleikann og verðandina er óumræðileg og leiftrandi. Almennt virðist manni að það sé mikill ljósagangur í hausnum á Einari Má Jónssyni. En það er ekki hlaupið að því að lýsa í nokkrum orðum bók eins og Örlagaborginni; hún er full af orðum. Hún er full af hverfum og byggingum sem birtast í svip en leysast óðara upp fyrir augum okkar; hún er full af hugmyndum sem höfundi er sérlega sýnt um að útmála á skýran og greinargóðan hátt, galgopaskap sem höfundur getur ekki stillt sig um að hafa í frammi, full af andríki og fróðleik – full af sviðsetningum. Þessi bók er algjört bíó. Það er meðal mótsetninganna í Einari Má Jónssyni: hann er íhaldssamur, eins og frægt er af Bréfi hans til Maríu, þar sem hann bölsótaðist yfir þrugli póstmódernismans og efaði stórlega erindi internetsins – en eitthvað í framsetningu þessarar bókar er líka ákaflega nútímalegt. Ekki bara það hvernig hann leyfir sér að tefla saman aðferðum sagnfræðinnar, heimspekinnar, hagfræði, hugmyndasögunnar og bókmenntanna án þess að hirða um að halda þeim aðgreindum eða hemja sína sterku huglægni, heldur ekki síður hitt hversu myndræn bókin er og einkennist af sífelldum sviðsetningum, höfundur er ævinlega að leiða okkur inn í nýjar og nýjar aðstæður þar sem hann útmálar fólk og umhverfi eins og bíómynd væri með nýjustu tölvubrellum. Kirkjufeðurnir sproksettirBókin er þannig full af ólíkindalátum hins uppátækjasama höfundar, sviðsetningum og orðagaldri en megineinkenni hennar er þó mannúðin, samlíðan með manneskjunum, andúð á valdi og reiði yfir ranglæti heimsins og formælendum þess. Örlagaborgin er atlaga að tilkalli til óhjákvæmileikans. Hún er atlaga að tilkalli hinnar svokölluðu klassísku hagfræði til að teljast nokkurs konar náttúruvísindi mannlegrar tilveru; að hagfræðin hafi fundið lögmál um mannlegt samfélag sem sambærileg séu við þau lögmál sem Newton fann og haft er fyrir satt að gilda í náttúrunni. Hann dregur kirkjufeður frjálshyggjunnar sundur og saman í háði svo að vart stendur steinn yfir steini í hugmyndum þeirra. Þau lögmál sem þessir menn töldu sig finna voru ævinlega til stuðnings misskiptingu, stéttaskiptingu, auðsöfnun fárra en allsleysi almúgans. Sú inngróna gáfa sem sérhver maður hefur – samúðin með öðru fólki og löngunin til að deila kjörum með öðrum – er tekin úr sambandi í þessum lögmálum. Lýsingarnar í bókinni á Manchester á tímum iðnbyltingarinnar eru ömurlegri en orð fá lýst og ekki að undra að menn skyldu hverfa af braut reiðareksstefnunnar í efnahagsmálum sem Adam Smith og fylgismenn hans boðuðu. Hitt er ráðgáta sem Einar Már mun fást við í næstu bók hvernig á því getur staðið að þessar firrur skyldu á ný verða alls ráðandi í efnahagsmálum heimsins á seinustu áratugum tuttugustu aldarinnar, svo að allt hrundi í byrjun þeirrar tuttugustu og fyrstu. Í því hverfi Örlagaborgarinnar erum við enn stödd og getum haft áhrif á byggingarnar þar.
„Öllum er fkn drull, haltu kjafti“ Bríet Bragadóttir,Hjördís Lára D. Ingólfsdóttir,Kristjana Anna Dagnýjardóttir Skoðun
Hvernig getum við gert Ísland að eftirsóttum stað fyrir barnafjölskyldur? Birgitta Sigurðardóttir Skoðun
„Öllum er fkn drull, haltu kjafti“ Bríet Bragadóttir,Hjördís Lára D. Ingólfsdóttir,Kristjana Anna Dagnýjardóttir Skoðun
Hvernig getum við gert Ísland að eftirsóttum stað fyrir barnafjölskyldur? Birgitta Sigurðardóttir Skoðun