Samkomulag tókst í gær milli Ísraela og palestínskra fanga, sem hafa verið í hungurverkfalli síðan um miðjan apríl til að mótmæla aðstæðum í ísraelskum fangelsum.
Að minnsta kosti 1.600 fangar hafa verið í hungurverkfalli vikum saman, nokkrir þeirra í allt að 77 daga og var ástand þeirra orðið hættulegt.
Palestínumenn tóku hins vegar dræmt í tilboð Ísraelsstjórnar um að hefja friðarviðræður á ný.
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, skrifaði á laugardag bréf til Mahmouds Abbas, forseta Palestínustjórnar, þar sem hann sagði breytingar á ríkisstjórn Ísraels gefa gott tækifæri til að hefja friðarviðræður á ný.
Netanjahú styrkti í síðustu viku stöðu sína á þingi þegar Kadima, stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, gekk til liðs við stjórnina.
Palestínumenn segja ekkert tekið á helstu deilumálum þeirra í bréfinu, svo sem útþenslu landtökubyggða eða framtíðarlegu landamæra, en Netanjahú segir að um þau þurfi að semja.- gb
