Fótbolti

Birkir skoraði í stóru tapi í Napólí

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Birkir Bjarnason í baráttu við Francesco Totti í síðasta leik Pescara.
Birkir Bjarnason í baráttu við Francesco Totti í síðasta leik Pescara. Nordicphotos/Getty
Birkir Bjarnason skoraði fyrir botnlið Pescara í ítölsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag þegar liðið tapaði 5-1 fyrir Napólí á útivelli. Birkir minnkaði muninn í 2-1 í fyrri hálfleik en Pescara var manni færri í rúman hálftíma.

Napólí fékk sannkalaða óskabyrjun þegar Gökhan Inler skoraði strax á 9. mínútu. Marek Hamsik bætti við öðru marki á 15. mínútu.

Þremur mínútum síðar minnkaði Birkir Bjarnason muninn með laglegum skalla eftir sendingu Damiano Zanon.

Staðan var 2-1 í hálfleik og enn var staðan óbreytt þegar Antonio Bocchetti fékk ódýrt rautt spjald á 57. mínútu þegar hann gerðist brotlegur innan vítateigs.

Edinson Cavani skoraði úr vítaspyrnunni og bætti öðru marki við á 63. mínútu. Napólí skoraði fimmta mark sitt í leiknum þegar 12. mínútur voru til leiksloka. Inler var þar að verki með sitt annað mark en sigur Napólí hefði getað orðið enn stærri.

Napólí er þar með komið með 33 stig en liðið er tveimur stigum á eftir á Juventus í efsta sæti deildarinnar.

Pescara er á botninum með 11 stig líkt og Siena og Bologna en mun lakari markatölu.

Sjá má helstu atvikin úr leiknum á heimasíðu SportTV eða með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×