AC Milan er enn í miklu basli í ítölsku úrvalsdeildinni en liðið náði 2-2 jafntefli gegn Palermo á útivelli í kvöld.
Palermo komst í 2-0 forystu með mörkum þeirra Fabrizio Miccoli úr vítaspyrnu í lok fyrri hálfleiks og Franco Brienza í upphafi þessi síðari.
Riccardo Montolivo minnkaði muninn á 69. mínútu og Stephen El Shaarawy skoraði jöfnunarmark Milan tíu mínútum fyrir leikslok.
Massimiliano Allegri, stjóri AC Milan, hefur verið mikið gagnrýndur í haust en liðið er í níunda sæti deildarinnar á Ítalíu með ellefu stig eftir tíu leiki.
Í B-deildinni gerði Hellas Verona 3-3 jafntefli við Crotone á útivelli. Emil Hallfreðsson spilaði allan leikinn með Verona sem er í öðru sæti deildarinnar með 25 stig, sex stigum á eftir toppliði Sassuolo.
