Jose Mourinho, þjálfari Real Madrid og fyrrum stjóri Chelsea, er viss um að Chelsea-liðið munu sakna Didier Drogba mikið á þessu tímabili. Fílabeinsstrendingurinn lék sinn síðasta leik með Chelsea í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í vor og samdi síðan við kínverska liðið Shanghai Shenhua.
Jose Mourinho keypti Didier Drogba til Chelsea frá Marseille fyrir átta árum síðan og á Brúnni vann Drogba ensku úrvalsdeildina þrisvar, enska bikarinn fjórum sinnum, enska deildarbikarinn tvisvar og loks Meistaradeildina í síðasta leiknum sínum. Í lokaleiknum tryggði hann Chelsea fyrst framlengingu og skoraði síðan úr síðustu spyrnunni í vítakeppninni.
„Didier Drogba var algjör örlagavaldur fyrir þá. Það er ekki hægt að fylla í skarð leikmanns eins og Drogba. Þú getur keypt frábæra leikmenn til félagsins en það verður bara einn leikmaður eins og Drogba í sögu Chelsea," sagði Jose Mourinho í viðtali við Sky Sports News.
„Didier Drogba er alltaf til staðar á stærstu stundunum. Í úrslitaleik eða í toppleik þá mætir Drogba. Þegar liðið er að tapa á heimavelli þá kemur Drogba til bjargar. Chelsea mun sakna Drogba í vetur og án Drogba koma færri stig í hús. Liðið er samt gott með marga frábæra leikmenn enda eru þeir Evrópumeistararnir," sagði Jose Mourinho.
Jose Mourinho: Chelsea mun sakna Drogba í vetur
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
