Fótbolti

Dómar felldir á Ítalíu | Bonucci í vondum málum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bonucci í úrslitaleiknum gegn Spánverjum á EM í sumar.
Bonucci í úrslitaleiknum gegn Spánverjum á EM í sumar. Nordicphotos/Getty
Leonardo Bonucci, varnarmaður Juventus og ítalska landsliðsins í knattspyrnu, gæti átt yfir höfði sér þriggja og hálfs árs bann frá knattspyrnuiðkun verði hann fundinn sekur um hagræðingu úrslita í ítalska boltanum. Reuters greinir frá þessu.

Saksóknari ítalska knattspyrnusambandsins hefur óskað eftir refsingunni fyrir varnarmanninn sem var í silfurliði Ítala á Evrópumótinu í sumar. Krafist er að Simone Pepe, liðsfélagi hans hjá Juventus, verði dæmdur í eins árs bann.

Réttarhöld standa nú yfir á Ítalíu þar sem knattspyrnufélög,-þjálfarar og -leikmenn eru sakaðir um að hafa ýmist hagrætt úrslitum eða horft í gegnum fingur sér og ekki tilkynnt um refsiverðan verknað.

Bonucci er sakaður um að hafa aðstoðað við hagræðingu úrslita sem leikmaður Bari í 3-3 jafntefli gegn Udinese árið 2010. Pepe, sem lék með Udinese í sama leik, er sakaður um að hafa haft vitneskju um svindlið en ekki látið vita.

Marco Di Vaio, fyrrum liðsmaður Bologna og nú leikmaður Montreal Impact í MLS-deildinni, á yfir höfði sér eins árs bann. Þá eiga minna þekktir spámenn yfir höfði sér allt að fjögurra ára bann frá knattspyrnu.

Reiknað er með því að niðurstaða í ofantöld mál fáist í næstu viku.

Dómar hafa þegar verið felldirFyrr í dag féllu dómar í nokkrum einstökum ákærum. Andrea Masiello, leikmaður Atalanta en þáverandi leikmaður Bari, fékk 26 mánaða bann auk þess sem nýliðar Sampdoria í Serie A munu hefja leiktíðina með eitt stig í mínus.

Þá mun Bari hefja leiktíðina í Serie B með fimm stig í mínus. Þrír fyrrverandi liðsmenn Bari fengu bönn allt frá þremur mánuðum til tveggja ára.

Talið er að alþjóðlegur veðmálahringur hafi greitt leikmönnum fyrir að sjá til þess að leikir liða sinna töpuðust. Alls eru 13 félög til rannsóknar og 45 leikmenn og þjálfarar.

Skandallinn vekur upp slæmar minningar í ítalska boltanum frá níunda áratug síðustu aldar auk skandalsins í aðdraganda heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu 2006 sem Ítalir unnu eftir allt saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×