Fótbolti

David Villa í leikmannahópi Barcelona fyrir United-leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Villa.
David Villa. Mynd/Nordic Photos/Getty
David Villa er kominn í leikmannahóp Barcelona í fyrsta sinn í átta mánuði en spænski landsliðsframherjinn verður með liðinu í æfingaleikjum á móti Manchester United í Gautaborg á morgun og Dinamo Búkarest þremur dögum síðar. Leikur Manchester United og Barcelona verður í beinni á Stöð 2 Sport 3 á morgun.

Tito Vilanova valdi Villa í hópinn sinn sem er reyndar stór því alls fara 24 leikmenn með í þetta ferðlag liðsins. Þetta eru síðustu æfingaleikir Barca fyrir spænsku úrvalsdeildina sem hefst helgina 18. og 19. ágúst.

„Það lítur út fyrir að hann sé í góðu formi þrátt fyrir svona langa fjarveru," sagði Andres Iniesta, liðsfélagi David Villa hjá Barcelona og spænska landsliðinu.

„Það er mjög ánægjulegt að sjá hann æfa á ný því hann er lykilmaður í okkar liði," sagði Iniesta. Barcelona missti af bæði spænska meistaratitlinum og meistaradeildinni á síðustu leiktíð og saknaði augljóslega Villa sem hefur skorað ófá mikilvæg mörk fyrir liðið undanfarin ár.

„Við vonum að hann geti farið að spila sem fyrst og að gera það sem hann er bestur í sem er að skora mörk," bætti Iniesta við. David Villa sem er orðinn 30 ára gamall, fótbrotnaði í Heimsmeistarakeppni félagsliða í desember síðastliðnum. Hann náði ekki að verða góður af meiðslunum fyrir Evrópukeppnina í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×