Sigmundur Einar Másson (GKG), Þórður Rafn Gissurarson (GR), Stefán Már Stefánsson (GR) og Alfreð Brynjar Kristinsson úr GKG eru allir á 68 höggum eða -2.
Þar á eftir koma þeir Kristinn Óskarsson úr GS, Birgir Leifur Hafþórsson fjórfaldur Íslandsmeistari úr GKG og Örlygur Helgi Grímsson úr GV. Þess má geta að Kristinn er betur þekktur sem einn allra reyndasti körfuknattleiksdómari landsins og Örlygur Helgi er vallarstjóri golfvallarins í Vestmannaeyjum.
Aðstæður á Strandarvelli voru með ágætum í dag, en það var nánast logn fyrri hluta dagsins en eftir hádegi fór aðeins að blása. Um tíma rigndi töluvert á kylfingana en það stóð ekki lengi yfir. Veðurspáin fyrir næstu þrjá keppnisdaga er góð.
Hinn 15 ára gamli Gísli Svein bergsson úr Keili lék vel á sínu fyrsta Íslandsmóti í fullorðinsflokki en hann lék á 73 höggum eða þremur höggum yfir pari.
Titilvörn Axels Bóassonar úr Keili byrjaði ekki vel en hann endaði daginn á 74 höggum.
Birgir Leifur: Als ekki sáttur við hringinn

Birgir fékk fjóra fugla á hringnum, einn skolla og einn skramba. „Ég gerði mistök á fjórðu holu og tók rangar ákvarðanir þar. Teighöggið var alltof stutt, og síðan gerði ég röð mistaka. Vonandi var þetta slæmi hringurinn á mótinu, eigum við ekki bara að segja það. Ég var fyirir utan þetta í ágætum málum," sagði Birgir en hann hefur sett sér það markmið að bæta met þeirra Björgvins Þorsteinssonar og Úlfars Jónssonar sem hafa sigrað sex sinnum á Íslandsmótinu í höggleik.
Haraldur Franklín: Öruggur og þægilegur hringur
Haraldur Franklín Magnús úr Golfklúbbi Reykjavíkur lék vel á fyrsta keppnisdegi Íslandsmótsins í höggleik á Strandarvelli á Hellu. Haraldur lék á 67 höggum eða 3 höggum undir pari vallar og er hann á næst besta skori dagsins þegar þetta er skrifað – ásamt Andra Má Óskarssyni úr GHR.
„Ég er sáttur, planið var að fá par á sem flestar brautir og fugla á þessar stuttu par fjögur holur sem gefa færi á sér. Þetta var öruggur og þægilegur hringur á fyrsta keppnisdegi," sagði Haraldur Franklín.
„Það gerði völlinn betri að fá rigninguna.Planið fyrir morgundaginn er að fá enga skolla og lauma inn nokkrum fuglum," sagði Haraldur Franklín Magnús en hann sigraði á Íslandsmótinu í holukeppni sem fram fór á Leirdalsvelli fyrr í sumar.
Rúnar: Það verður bara fimbulfamb í kvöld
„Ég er sáttur og þetta gekk bara vel," sagði Keilismaðurinn Rúnar Arnórsson eftir að hann hafði leikið á 66 höggum á fyrsta keppnisdegi Íslandsmótsins í höggleik á Strandarvelli í dag. Rúnar er þegar þetta er skrifað á besta skori dagsins í karlaflokknum, fjórum höggum undir pari vallar.
Rúnar fékk fimm fugla á hringnum í dag, 2., 7., 10., 12. og 15. „Ég fékk einn skolla, en annars var þetta að ganga vel upp. Ég lék vel í meistaramótinu hjá Keili og ég ætla bara að halda því áfram," bætti Rúnar við en hann var staddur úti á æfingasvæði þegar viðtalið var tekið. „Ég geri þetta oftast eftir hringina, fer yfir málin með pabba og slæ mig aðeins niður."
Rúnar á að hefja leik síðdegis á föstudag á öðrum keppnisdegi og hann ætlar að drepa tímann fram að því í faðmi fjölskyldunnar í sumarbústað í nágrenni við Hellu. „Það er ekki einu sinni nettenging þarna, og ég held að það verði bara spilað fimbulfamb í kvöld," sagði Rúnar.