Íslenski landsliðsmaðurinn Birkir Bjarnason hefur verið lánaður til Pescara sem leikur í efstu deild ítalska boltans. Aftonbladet greinir frá þessu.
Birkir fór frjálsri sölu til Standard Liege í Belgíu á síðasta tímabili frá Viking og skrifaði undir þriggja ára samning við belgíska félagið. Hann verður í láni hjá Pescara út tímabilið og mun félagið hafa tryggt sér forkaupsrétt á honum að tímabilinu loknu.
„Þetta er einstakt tækifæri sem ég gat ekki sagt nei við. Mig hefur lengi dreymt um að spila í efstu deild ítalska boltans," er haft eftir Birki hjá norska blaðinu.
Knattspyrnustjóri Pescara er Giovanni Stroppa sem lék á sínum tíma meðal annars með AC Milan og Lazio.
Birkir verður annar af tveimur íslenskum leikmönnum á mála hjá liði í Serie A á næsta tímabili. Hinn 19 ára Hörður Björgvin Magnússon er á mála hjá ítölsku meisturunum Juventus. Þá leikur Emil Hallfreðsson með liði Verona í Serie B.
Birkir hefur verið í aðalhlutverki í síðustu landsleikjum Íslands og skoraði meðal annars annað mark Íslands í 3-2 tapinu í vináttuleiknum gegn Frökkum á dögunum.

