Sport

Caster Semenya náði ÓL-lágmarki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Caster Semenya.
Caster Semenya. Nordic Photos / Getty Images
Caster Semenya, fyrrum heimsmeistari í 800 m hlaupi kvenna, hefur unnið sér inn þátttökurétt á Ólympíuleikunum í Lundúnum eftir að hafa náð lágmarki í greininni í gær.

Semeneya tók þátt í móti í heimalandi sínu, Suður-Afríku, í gær og hljóp á 1:59,58 mínútum. Keppnislið Suður-Afríku verður líklega tilkynnt í júlí og líklegt er að Semeneya verði þar á meðal.

„Ég verð að vinna Ólympíugull," sagði hún. „Það er það sem ég vil. Það er draumurinn minn. Þetta var skref í rétta átt."

Hún er 21 árs gömul en öðlaðist heimsfrægð þegar hún var skylduð til að gangast undir kynjapróf eftir að hún vann gull á HM í frjálsum árið 2009. Það tók ellefu mánuði að fá niðurstöðu í málið en á endanum var úrskurðað að hún mætti keppa í kvennaflokki.

Síðan þá hefur gengið á ýmsu hjá henni en hún virðist vera komast á skrið á ný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×