Wilson Kipsang frá Kenýa sigraði í karlaflokki í Lundúnarmaraþonhlaupinu sem fram fór um helgina og Mary Keitany, einnig frá Kenýa, sigraði í kvennaflokknum. Um 37.500 keppendur tóku þátt en þrítug kona lést ekki langt frá endamarkinu. Kipsang var rétt rúmlega tvær klukkstundir að hlaupa rúmlega 42 km., en hann kom í mark á tímanum 2:04.44. Keitany hljóp vegalengdina á 2:18.36 en þetta er annað árið í röð sem hún sigrar í þessu hlaupi.
Ekki er búið að gefa það út hvað varð til þess að hin þrítuga kona lést í keppninni. Hún var ensk og hneig hún niður ekki langt frá endamarkinu. Hjarta hennar stöðvaðist og endurlífgun bar ekki árangur. Þetta er í 10. sinn sem keppandi deyr í Londonmaraþoninu frá því að keppni fór fyrst fram árið 1981. Síðasta andlátið var árið 2007 þegar 22 ára gömul kona lést.
