Hræðilegt atvik átti sér stað í leik Livorno og Pescara í ítölsku B-deildinni í dag þegar Ítalinn Piermario Morosini, leikmaður Livorno, fékk hjartaáfall og var síðan úrskurðaur látinn stuttu síðar.
Morosini hneig niður eftir rúmlega hálftíma leik og sást strax að hann barðist fyrir lífi sínu. Sjúkrabíl var ekið umsvifalaust inná miðjan völlinn en endurlífgunartilraunir báru engan árangur.
Það er ekki langt síðan að Fabrice Muamba, leikmaður Bolton, fékk hjartaáfall í miðjum leik gegn Tottenham en í hans tilviki björguðu endurlífgunartilraunir lífi hans.
Ítalska þjóðin er öll harmi sleginn og ríkir mikil sorg í landinu en öllum leikjum helgarinnar hefur nú þegar verið frestað.
