Claudio Ranieri var rekinn í kvöld en hann hefur verið þjálfari ítalska liðsins Inter Milan síðan í september. Það hefur ekkert gengið hjá liðinu eftir áramót, Inter datt út úr Meistaradeildinni og hefur einnig hrunið niður töfluna í ítölsku deildinni.
Andrea Stramaccioni, unglingaliðsþjálfari hjá Inter, mun taka við liðinu af Ranieri og stjórna því til loka tímabilsins.
Síðasti leikur Inter undir stjórn Claudio Ranieri var 0-2 tapleikur á móti Juventus um helgina. Inter hefur aðeins náð að vinna einn af síðustu 10 leikjum sínum í ítölsku deildinni og er komið niður í áttunda sæti.
Andre Villas-Boas, sem var rekinn frá Chelsea fyrr í þessum mánuði, Pep Guardiola, þjálfari Barcelona og Zdenek Zeman, þjálfari Pescara hafa allir verið orðaðir við starfið hjá Inter.
