Pólverji sem grunaður er um rán í úraverslunin Michelsen á Laugavegi í október í fyrra er væntanlegur til landsins í dag en hann var ásamt félaga sínum sem einnig er grunaður í málinu handtekinn í Sviss í síðasta mánuði. Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir hjá Ríkissaksóknara segir að farið verði fram á gæsluvarðhald yfir manninum um leið og hann kemur til landsins. Síðan tekur við rannsókn á þætti mannsins í ráninu.
Hinn maðurinn er enn í Sviss en hann sætir rannsóknar þar ytra. Margrét Unnur segist þó gera ráð fyrir því að hann komi hingað til lands, fyrr eða síðar, til að standa skil á gjörðum sínum. Félagi mannanna sem átti að koma ránsfengnum úr landi var á dögunum dæmdur í fimm ára fangelsi í héraðsdómi.
Mennirnir sem rændu Michelsen voru fjórir og því gengur einn þeirra enn laus. Talið er að hann sé í Póllandi.