Bayern München andar ofan í hálsmálið á Borussia Dortmund í baráttunni um þýska meistaraskjöldinn. Bæjarar unnu þægilegan 2-0 sigur á Schalke í stórleik dagsins. Frank Ribery skoraði bæði mörk liðsins.
Franski landsliðmaðurinn Frank Ribery kom Bæjurum á bragðið á 36. mínútu þegar hann fór illa með Timo Hildebrand, markvörð Schalke, sem var kominn langt út úr marki sínu.
Ribery var svo aftur á ferðinni snemma í síðari hálfleik þegar hann skoraði með glæsilegu skoti utarlega úr teignum sem Hildebrand réð ekki við.
Um sannkallaðan sex stiga leik í toppbaráttu þýska boltans var að ræða. Það var hins vegar ekki að sjá á leiknum í dag að liðin væru í svipuðum gæðaflokki en yfirburðir heimamanna voru töluverðir.
Bæjarar eru í öðru sæti með 48 stig, stigi á eftir Dortmund sem mætir Hannover síðar í dag. Schalke situr í 4. sæti með 44 stig.
