Stefnt er að því að syngja frá klukkan þrjú til tólf í þrjá daga; fimmtudag, föstudag og laugardag eða þar til að minnsta kosti 35 þúsund manns hafa skrifað undir áskorun um að auðlindir landsins verði framvegis í lögsögu almennings. Björk er einn af þeim sem standa að söngmótinu og eru landsmenn allir hvattir til að mæta.
Nú þegar hafa um tuttugu þúsund manns skrifað undir áskorun á www.orkuaudlindir.is. Norræna húsinu verður umbreytt í glæsilegan karaókí-skemmtistað þar sem verður opinn bar og frumorka í lofti.
Þá segir í tilkynningu frá undirbúningshópnum að landsmenn eru allir hvattir til að mæta í Norræna húsið, eða á samkomustaði út um land allt, lagvissir og lagvilltir, og syngja einsöng, tvísöng eða fjöldasöng. Þá sé einnig fyrirtaks flygill í Norræna húsinu og er fólkið velkomið að syngja við eigin undirspil eða vina.
„Allir sem bera hag landsins fyrir brjósti leggjast á eitt og flytja náttúru Íslands kraftmikinn óð. Syngjum orkuauðlindirnar aftur til okkar."