Handbolti

Einar Ingi: Ánægður að fá tækifærið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Einar Ingi Hrafnsson.
Einar Ingi Hrafnsson.
Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handbolta, valdi í gær nítján leikmenn í æfingahóp landsliðsins. Hópurinn kemur saman á mánudaginn og mun æfa saman til föstudags.

Þrjá mikilvæga leikmenn vantar í liðið – Ólafur Stefánsson er meiddur og þeir Guðjón Valur Sigurðsson og Sverre Jakobsson gefa ekki kost á sér af fjölskylduástæðum.

Liðið leikur æfingaleik gegn úrvalsliði N1-deildar karla föstudagskvöldið 4. október en annars verður bara æft.

„Við munum nýta tímann til að fara yfir okkar leikaðferðir, bæði í vörn og sókn. Við munum prófa ný afbrigði og rifja upp það sem hefur gengið vel," sagði Guðmundur og bætti við að liðið myndi einnig leggja áherslu á að æfa varnarleikinn sem hefur þjónað landsliðinu svo vel allt frá Ólympíuleikunum í Peking árið 2008.

Einn þeirra sem voru valdir í hópinn nú er línumaðurinn Einar Ingi Hrafnsson, sem hefur verið að spila glimrandi vel með danska liðinu Mors-Thy.

„Ég er virkilega ánægður með að fá tækifærið núna. Ég hef verið með á æfingum nokkrum sinnum áður og ég mun gera mitt allra besta," sagði Einar Ingi, en hann segir að dvölin í Danmörku hafi reynst honum sérstaklega vel.

„Þetta hefur verið vonum framar og er búið að ganga frábærlega. Þetta var virkilega gott skref á mínum ferli," bætti hann við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×