
Hin hálfíslenska raunveruleikaþáttastjarna Fredrik Ferrier er í tveggja opna viðtali í nýjasta tölublaði breska tímaritsins Hello! ásamt kærustu sinni Alessöndru Würfel. Í viðtalinu talar Ferrier um ástina, velgengni raunveruleikaþáttarins Made in Chelsea og lúxuslífsstílinn sem hann hefur tileinkað sér.
Fredrik Kristján Jónsson Ferrier, sem á íslenskan föður, er fyrirsæta og tónlistarmaður, en kærasta hans hefur gert garðinn frægan sem nærfatamódel fyrir Agent Provocateur. Ástæðan fyrir viðtalinu er sú að Ferrier bauð kærustunni óvænt til New York, en fjölskyldan hans á þakíbúð á Manhattan þar sem fyrirsætuparið sat fyrir við myndatöku.
Raunveruleikaþættirnir Made in Chelsea hafa slegið í gegn í Bretlandi og er nú verið að sýna aðra þáttaröðina. Sýningar eru hafnar á þáttunum í Ástralíu og hafa Bandaríkjamenn einnig áhuga. Krakkarnir frá Chelsea gætu því verið á barmi heimsfrægðar, samkvæmt Hello!, en í þáttunum er fylgst með vinahópi frá fínu hverfunum í London.

„Ég verð að vera alveg hreinskilinn og viðurkenna að foreldrar mínir halda mér uppi. Þegar ég var í námi gáfu þau mér pening ef ég stóð mig vel, en ég fékk ekkert ef ég stóð mig illa. Þannig lærði ég að kunna að meta peninga en ég veit að ég nýt forréttinda í lífinu."
Ferrier syngur og spilar á víólu og píanó, en hann heillaði Würfel upp úr skónum með því að syngja fyrir hana í Harrods-verslunarmiðstöðinni á fyrsta stefnumótinu.
alfrun@frettabladid.is
