
Anna Svava og Hugleikur Dagsson hafa ferðast um landið undanfarna daga með uppistand. Fyrr í vikunni voru þau á Húsavík og í gær komu þau fram á Akureyri. Í kvöld koma þau svo fram í Þorlákshöfn og ferðalagið endar í Reykjavík á sunnudagskvöld á Café Rosenberg klukkan 21.
Anna segir vel hafa gengið á Húsavík og að hún og Hugleikur hafi verið mjög fyndin. „Það mættu bara ógeðslega fáir,“ segir hún, en bætir við að það hafi verið stutt í mánaðamót og það hafi mögulega spilað inn í.
„En þetta er mjög gaman og það er mjög gaman fyrir okkur að vera saman,“ segir Anna áður en Hugleikur virðist hafa gripið orðið þar sem hann situr í órafjarlægð frá símtækinu. Hann tekur því við símanum. „Maður fær mjög sjaldan eitthvað upp úr henni. Hún talar svo hratt,“ segir Hugleikur en bætir við að hann telji að Anna sé Sarah Silverman Íslands og hann sjálfur sé Louis CK Íslands. „Ég er svo gömul sál. Og rauðhærður að innan.“