Tónlist

Búinn að lifa lífinu nóg

Atli Fannar Bjarkason skrifar
Gísli Pálmi ásamt hinum dularfulla FROSTY.
Gísli Pálmi ásamt hinum dularfulla FROSTY.
Ef þú hefur heyrt um rapparann Gísla Pálma eru góðar líkur á því að þú hafir fyrst heyrt um hann nýlega. Hann sendi frá sér lagið Set mig í gang á þjóðhátíðardaginn og annar hver maður hefur deilt myndbandinu við lagið á Facebook-vegg sínum undanfarnar vikur. Þar sést Gísli ber að ofan, hnykla vöðvana og í bakgrunni hefur Range Rover-jeppa verið lagt. Hann er reyndar í eigu vinar Gísla Pálma, sem er rétt að skríða yfir tvítugt. „Annar af tveimur,“ segir Gísli.

Gísli Pálmi hefur ekki farið hefðbundnu leiðina í gegnum lífið. Frá barnsaldri voru ávallt mikil læti í kringum hann að eigin sögn. Á unglingsárunum fór líf hans svo úr böndunum, hann hætti í skóla og fetaði vafasama braut. Hann hefur verið að rappa síðasta áratug, eða helming ævi sinnar en hann er fæddur árið 1991, árið sem íslenska landsliðið í bridds vann sigur á heimsmeistaramóti í Yokohama í Japan og bófarappið í Bandaríkjunum blómstraði með nýjum plötum frá þá grjóthörðum Ice Cube og hljómsveitinni N.W.A. Gísli Pálmi vinnur tónlistina ásamt félaga sínum sem kallar sig FROSTY, en hann er nýkominn heim til Íslands frá Amsterdam þar sem hann lærði hljóðvinnslu.

„Hljómgæðin í þessu lagi voru ekki einu sinni fullkomin. Ég var svo æstur í að henda upp myndbandi að ég fékk hann til að hljóðblanda lagið á tæpum hálftíma og sagði svo: „Ókei, flott!“,“ segir Gísli um smellinn þeirra Set mig í gang. Gísli og FROSTY hyggjast gefa út lög vikulega á næstunni og framleiða myndbönd við þau öll.

Myndböndin eru birt á Youtube og hægt er að hala öllum lögunum niður frítt. Þessar aðferðir eru vel þekktar vestanhafs til að byggja upp aðdáendahóp, en rapparinn Lil‘ Wayne gerði aðferðina að list þegar hann dældi frá sér lögum í aðdraganda plötunnar Tha Carter III árið 2008. Meira en milljón eintök af plötunni seldust í vikunni sem hún kom út. Plötuútgáfa heillar hins vegar ekki Gísla Pálma — að minnsta kosti ekki á Íslandi.

„Við þekkjum nokkra strákar sem hafa gefið út hipphopp-plötur á klakanum. Þetta er bara basl. Það er ekki eins og þeir séu á samningi í Bandaríkjunum og platan sé allt í einu gefin út án þess að þeir lyfti putta. Þeir eru hlaupandi á milli staða með plakötin og myndirnar og eru að vinna alla vinnuna. Svo leggja þeir út fyrir þessu og vona að þeir komi út í plús. Það er enginn að kaupa geisladiska í dag. Ég hef ekki labbað inn í Skífuna með gjafabréf sem ég fékk í jólagjöf frá því að ég var átta ára,“ segir Gísli.

„Við stefnum á að fara með tónlistina lengra, hvort sem það verður peningur til eða ekki. Við ætlum að senda frá okkur tónlist sem er núna í gangi. Eftir sumarið byrja ég að semja texta á ensku og eftir það getum við kannski komið okkur á framfæri á heimsvísu. Þetta er sama tónlist og er spiluð í útvarpinu — það kemur alltaf versta tónlistin í íslenskt útvarp. Óútpældustu lögin.“

Gísli Pálmi er sonur athafnamannsins Sigurðar Gísla Pálmasonar, en hefur að eigin sögn ávallt unnið fyrir sínu og ekki notið fjárhagslega góðs af fjölskyldutengslum sínum. Hann er maður með fortíð og hefur innistæðu til að nota orðið „gangster“ til að lýsa tónlist sinni, þar sem hann rappar um eigið líf og segist ekki ljúga neinu.

„Ég segi aldrei ósatt. Ég er ekki að fara að segja frá dýpstu leyndarmálunum mínum, en þetta er meira og minna allt satt. Ég geri þetta fyrir alla og sérstaklega hópinn minn, sem finnst gaman að hlusta á tónlist. En „gangster“ er frekar asnalegt orð. Við erum bara venjulegir gaurar og erum búnir að ganga í gegnum margt. Búnir að taka þennan vesenspakka sundur og saman. Við erum samt ekki jafn grófir í dag, en ef einhvern langar að fara yfir strikið gagnvart mér er ég enn þá til alls líklegur.“

Aðspurður um viðbrögð við Set mig í gang segir Gísli kokhraustur að allir elski lagið og bætir við, ekki minna kokhraustur, að hreinlega allir hafi beðið eftir laginu. „Það vantaði svona tónlist. Það er búið að vera svo mikið píkudæmi í gangi. Það vantaði alvöru rapp. Á Íslandi eru þeir sem eru góðir í að skrifa texta ekki búnir að vera með nógu góða takta undir og þeir sem eru góðir í að gera takta eru ekki að vinna með nógu góðum röppurum — eða eru kannski eins og Friðrik Dór sem er að syngja aðra tegund af tónlist. Formúlan er svipuð, en miklu mýkri. Viðtökurnar hafa verið ótrúlegar frá alls konar fólki. Allt frá þvílíkt metró-sexúal-gaurum sem eru í MR til atvinnulausra gangstera. Þetta er ótrúlegt. Annað hvort varstu „mainstream“ og hlustaðir á Friðrik Dór eða „underground“ að hlusta á Wu Tang. Allir þessir hópar eru að hlusta, sem kom okkur þvílíkt á óvart.“

FROSTY hefur hingað til verið nokkuð þögull, en sér sig knúinn til að taka undir orð Gísla: „Stefnan er að dúndra tónlistinni út og fylgja henni eftir. Eins og ég segi, það eru svo margir sem fara í blöðin og segjast vera að gera þvílíka hluti. Svo gerist ekki rassgat; segjast ætla að gefa út geisladisk og hann kemur út ákveðinn dag, svo er beðið í heilt ár og það gerist ekki neitt. Fólk er að tala í staðinn fyrir að gera hlutina.“

En eitt lag á viku, kemur niður á gæðum tónlistarinnar að vinna hana svona hratt?

„Alls ekki, sko,“ segir FROSTY. „Þetta er grúv sem maður dettur í á einu kvöldi og við gerum lag með texta og öllu saman. Trúðu mér, þetta verður bara betra og betra.“ Og Gísli Pálmi tekur við: „Það er heilmikil vinna að gera þetta á íslensku. Ég nota mikið af slangri og það gæti þetta enginn nema að vera búinn að ganga í gegnum það sem ég hef gengið í gegnum — að vera búinn að hanga á röngum stöðum síðustu tíu árin. Þaðan fæ ég þennan orðaforða. Það er mikið af földum skilaboðum í textunum, sem ég segi ekki beint út. Ég fel grófustu hlutina, þeir koma fram í öðru formi.“ Og FROSTY bætir við: „Ef þú ert bara einhver sem þekkir ekki lífsstíl okkar, þá skilurðu hvað hann á við.“

Þegar Gísli er beðinn um útskýra nánar hvað hann meinar með að hanga á röngum stöðum segist hann hafa verið í tómu rugli frá ellefu ára aldri. Hann var ávallt yngstur í hópnum, FROSTY er til að mynda fimm árum eldri en hann, en var engu að síður sjálfur mjög ungur þegar þeir kynntust. „Ég var alveg farinn í hausnum og braust inn alls staðar, tók allt ófrjálsri hendi — alveg í bullandi neyslu auðvitað, rændi bílum bara til að rúnta. Ef það var eitthvað sem ég gerði ekki, þá er það líklegast ekki hægt,“ segir Gísli Pálmi.

Og ertu búinn að snúa við blaðinu í dag?

„Já, algjörlega. Ég fann innri frið fyrir nokkrum árum. Ég fékk metnað fyrir öðru. Ég er búinn að lifa lífinu nóg. Í staðinn fyrir að eyða orkunni minni í allar þessar hringekjur sem ég hef verið í síðustu ár, þá ákvað ég að vernda orkuna og nýta hana í tónlist og ræktun á sjálfum mér.“

Gísli Pálmi er á Facebook, en þar má finna nýjustu myndböndin, lögin, myndir og fréttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×