Þyngdaraflið er sterkast á tveimur svæðum jarðar: Annars vegar á nokkuð stóru svæði í Atlantshafinu, sem nær rétt norður fyrir Ísland og alla leið suður að Azoreyjum, hins vegar á svæði norður af Ástralíu allt frá Filippseyjum og austur að Fídjíeyjum í Suður-Kyrrahafi.
Minnsti styrkur þyngdaraflsins er hins vegar á sunnanverðu Indlandi og stóru svæði þar suður af á Indlandshafi.
Þetta er niðurstaðan úr mælingum vísindamanna við Evrópsku geimferðastofnunina, sem hafa nú sent frá sér endurbætta kortlagningu þyngdaraflsins á jörðinni.
Kortlagningin er byggð á gögnum úr gervihnettinum GOCE, sem þeytist í kringum jörðina í 255 kílómetra hæð og mælir styrkleikamun þyngdaraflsins milli staða.
Munurinn er reyndar svo lítill að hann telst ekki skynjanlegur nema í mælitækjum. Í kortlagningunni er hann hins vegar ýktur mjög, svo greinilega megi sjá dreifinguna.
Tilgangur mælinganna er ekki síst sá að reikna út hæðina á yfirborði sjávar á hverjum stað, svo hægt sé að bera saman „raunverulega" hæð staða á jörðinni frekar en bara hæð yfir sjávarmáli, eins og til þessa hefur eingöngu reynst unnt.
- gb
