Endurnýjun flugstjórnarklefa í sextán Boeing 757 vélum í eigu Icelandair stendur yfir.
Með aukinni tölvuvæðingu í flugstjórnarklefanum er ætlunin að auka öryggi, draga úr viðhaldskostnaði og spara eldsneyti, segir í fréttatilkynningu.
Flugmenn fá aðgang að meiri upplýsingum en áður um flugið og stöðu vélarinnar. Þá verður nýjum gagnatengingum komið fyrir í vélunum til að tryggja að stjórnstöðin á Keflavíkurflugvelli verði í stöðugu sambandi við vélarnar hvar sem þær eru staddar á lofti eða á jörðu.
„Með þessari uppfærslu á tækjabúnaði er stjórnklefi Boeing 757 flugvélanna okkar búinn fyrir flugumferðarstjórnunarkerfi framtíðar,“ segir Hilmar Baldursson, flugrekstrarstjóri Icelandair.
Tækniþjónusta Icelandair á Keflavíkurflugvelli annast breytingar jafnt og þétt samhliða reglulegum skoðunum. Félagið segist vera fyrsta flugfélagið í Evrópu til að ráðast í breytingar af þessu tagi á Boeing 757 vélum. - pg
Endurnýja flugstjórnarklefa í sextán vélum
