Skoðun

Rangar tölur hjá Pawel

Runólfur Ólafsson skrifar

Það er auðvelt að komast að rangri niðurstöðu með því að nota rangar tölur. Stærðfræðingurinn Pawel Bartoszek fellur í þann pytt í grein í Fréttablaðinu í gær. Þar fullyrðir hann að útgjöld "hins opinbera" af umferð séu töluvert meiri en tekjurnar. Því sé það tóm frekja af FÍB og 18% kosningabærra landsmanna að vera á móti vegatollum.

Á síðasta ári voru útgjöld ríkisins til vegamála um 22 milljarðar króna. Tekjur af bílum og bílanotkun voru 42 milljarðar. Stærðfræðingurinn vitnar í Hagstofuna um að útgjöldin hafi verið 39 milljarðar. Þar ber hann saman epli og appelsínur, því að inni í þeirri tölu eru útgjöld sveitarfélaga vegna gatnagerðar. Á móti þeim útgjöldum koma að sjálfsögðu útsvarstekjur og gatnagerðargjöld sveitarfélaganna. Pawel kýs hins vegar að sleppa þeim tekjulið í samanburðinum.

Pawel segir að auðvitað vilji fólk "ókeypis" hraðbrautir og þess vegna sé það á móti vegatollum. Þetta er rangt ályktað. Vegakerfið er ekkert ókeypis, bíleigendur og bílnotendur borga tvöfalt til þrefalt meira fyrir að fá að fara ferða sinna en ríkið ver til vegamála.

Pawel kallar FÍB sérhagsmunasamtök. Þeir sérhagsmunir sem FÍB sinnir, með 15 þúsund fjölskyldur að baki, snúa að þriðja stærsta útgjaldalið rúmlega 95% íslenskra heimila. Ekki beint "sérhagsmunir" í augum flestra.

Gott er þó til þess að vita að Pawel er sammála FÍB um að auðvitað eigi að leita ódýrari lausna til að bæta vegakerfið og auka öryggi vegfarenda.






Skoðun

Sjá meira


×