Ítalski miðjumaðurinn Alberto Aquilani hefur verið lánaður til Ítalíumeistara AC Milan. Liverpool hefur staðfest þetta á heimasíðu sinni.
„Ég vil lýsa yfir ánægju minni með framkomu Alberto á meðan á viðræðum stóð," sagði Damien Comolli yfirmaður knattspyrnumála hjá Liverpool.
Aquilani verður í láni hjá AC Milan í eitt ár en Ítalinn var á láni hjá keppinaut þeirra, Juventus, á síðasta tímabili. Aquilani, sem er 27 ára, hefur þótt standa sig vel undanfarið ár. Hann skoraði meðal annars sigurmark Ítala gegn Spánverjum í vináttulandsleik fyrir skemmstu.
Comolli segir Aquilani umfram allt hafa viljað spila fótbolta og tekið það fram yfir allar aðrar umræður og vangaveltur.
„Við óskum honum góðs gengis á komandi tímabili," sagði Comolli.
Óvíst er hvenær ítalska keppnistímabilið hefst en verkfall knattspyrnumanna á Ítalíu er yfirvofandi.
Aquilani lánaður til AC Milan
Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
