Fyrsta Landsmót UMFÍ 50+ verður haldið á Hvammstanga um næstu helgi. Vegna fjölmargra fyrirspurna hefur verið ákveðið að áfram verði hægt að skrá sig til leiks á Landsmót UMFÍ 50 +. Keppnisgreinar á mótinu eru: blak, bridds, boccia, badminton, frjálsar íþróttir, fjallaskokk, hestaíþróttir, golf, pútt, línudans, skák, sund, þríþraut, starfsíþróttir (búfjardómar, dráttavélaakstur, jurtagreining, pönnukökubakstur og kökuskeyting).
Þátttökugjald er 3.000 krónur óháð fjölda greina sem keppt er í. Innifalið í gjaldinu eru frí tjaldstæði í Kirkjuhvammi á Hvammstanga þessa helgi og frítt á alla viðburði sem verða í gangi í tengslum við mótið.
"Við ákváðum að hafa opið áfram fyrir skráningar vegna fjölda fyrirspurna. Allur undirbúningur fyrir mótið gengur að óskum og allt verður klárt þegar keppendur mæta á staðinn. Við bíðum spennt eftir því að taka á móti keppendum og gestum," sagði Sigurður Guðmundsson framkvæmdastjóri Landsmót UMFÍ 50+.
Landsmót UMFÍ 50+, opið áfram fyrir skráningar
