Tennis- og badmintonfélag Reykjavíkur er á meðal liða í Evrópukeppni félagsliða sem hefst í Zwolla í Hollandi í dag. Fyrsti leikur TBR er gegn franska liðinu Bordeaux Union St. Bruno sem var raðað annað inn í mótið.
Lið TBR skipa þau Bjarki Hlífar Stefánsson, Einar Óskarsson, Haukur Stefánsson, Jónas Baldursson, Halldóra Elín Jóhannsdóttir, Karitas Ósk Ólafsdóttir, Margrét Jóhannsdóttir og Þorbjörg Kristinsdóttir.
TBR tryggði sér þátttökurétt í keppninni með því að sigra deildakeppni BSÍ í febrúar síðastliðnum.
Auk franska liðsins eru Mount Pleasant frá Írlandi og CHEL frá Portúgal í riðli með Íslandi. Fimmtán lið mæta til leiks í Zwolla og spilað er í fjórum riðlum.

