„Við ætlum ekki lengur að vinna í umhverfi sem tortryggir störf okkar og reynir að beisla málfrelsi okkar. Það á bæði við um forystu okkar eigin flokks og samstarfsflokksins í ríkisstjórn. Við höfum ítrekað mátt sæta ómálefnalegum ásökunum í okkar garð frá formanni Samfylkingarinnar og einstökum þingmönnum þess flokks," segir í yfirlýsingu sem Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason sendu frá sér og kynntu á blaðamannafundi í Alþingishúsinu í morgun. Þar skýrðu þau frá ástæðum þess að þau segja skilið við þingflokk Vinstri grænna.
„Við treystum okkur ekki lengur til að styðja skilyrðislaust núverandi ríkisstjórn eða bera ábyrgð á stefnu hennar og vinnubrögðum. Við munum hins vegar standa óháð vaktina fyrir stefnumálum VG og starfa í þeim anda bæði innan VG og á Alþingi," segir ennfremur í yfirlýsingu þeirra Atla og Lilju.
Hana má lesa í heild sinni hér að neðan.
