Robin van Persie mun missa af seinni leiknum á móti Barcelona í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar vegna meiðsla sem hann varð fyrir í úrslitaleik deildarbikarsins á móti Birmingham á Wembley um helgina.Í dag kom í ljóst að hollenski framherjinn verður frá í að minnsta kosti þrjár vikur.
„Því miður fengum við þessar slæmu fréttir úr myndatökunni og það er öruggt að hann verður frá í þrjár vikur. Hann gæti líka verið lengur frá en það er pottþétt að hann verður ekki með á móti Barcelona," sagði Arsene Wenger, stjóri Arsenal á heimasíðu félagsins.
Van Persie meiddist á hné um leið og hann skoraði mark Arsenal í leiknum en þetta var þrettánda mark hans í síðustu ellefu leikjum í öllum keppnum.
Arsenal mætir Leyton Orient í enska bikarnum á morgun og verður þar án margra lykilmanna.
Theo Walcott er meiddur á ökkla og missir líka af Barcelona-leiknum. Cesc Fabregas verður ekki með á morgun og er tæpur fyrir Barcelona-leikinn og þá meiddust þeir Alex Song og Laurent Koscielny einnig á sunnudaginn og missa af leiknum á morgun.
