Bjarki Diego, fyrrverandi framkvæmdastjóri útlána hjá Kaupþingi, er annar þeirra tveggja sem handteknir voru á Íslandi í morgun í tengslum við rannsókn á Kaupþingi. Þá var Guðni Níels Aðalsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fjárstýringar bankans, handtekinn í Lundúnum.
Eins og Vísir greindi frá í morgun voru níu menn handteknir í tengslum við rannsóknina í Bretlandi. Um er að ræða Tchenguiz bræðurna, sem voru stærstu skuldarar bankans, Sigurð Einarsson, fyrrverandi stjórnarformann, Ármann Þorvaldsson, fyrrverandi forstjóra Kaupþings Singer&Friedlander, auk Guðna Níels. Tveir hinna handteknu voru teknir á Íslandi og er Bjarki annar þeirra.
Ekki liggur fyrir á þessari stundu hverjir aðrir hafa verið handteknir. Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að málið snúist um innlán á Edge reikningum í Bretlandi.
Bjarki Diego og Guðni Níels á meðal þeirra handteknu
