Spánverjinn Raúl Gonzalez skoraði þrennu fyrir Schalke 04 í 4-0 stórsigri á Meistaradeildarliði Weerder Bremen í þýsku úrvalsdeildinni í gær. Þetta var fyrsta þrennan hans fyrir þýska félagið síðan að hann kom þangað frá Real Madrid í sumar.
Raúl var réttur maður á réttum stað í tveimur fyrstu mörkunum sem komu á 45. og 56. mínútu og innsiglaði síðan þrennuna sína með því að lyfta boltanum snilldarlega yfir Tim Wiese í marki Bremen á 71. mínútu leiksins. Það er hægt að sjá þessi þrjú mörk með því að smella hér.
Raúl skoraði aðeins eitt mark í fyrstu tíu deildarleikjum sínum með Schalke 04 en hefur nú skoraði fimm mörk í síðustu þremur leikjum og er því greinilega búinn að finna skotskónna í Þýskalandi.
Þrenna Raúl gegn Werder Bremen í gær - myndband
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
