Fótbolti

Ferguson: Rooney var stórkostlegur í kvöld

Ómar Þorgeirsson skrifar
Sir Alex Ferguson.
Sir Alex Ferguson. Nordic photos/AFP

Knattspyrnustjórinn Sir Alex Ferguson hjá Manchester United hrósaði framherjanum Wayne Rooney sérstaklega í leikslok eftir 2-3 sigur liðs síns gegn AC Milan í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar á San Siro-leikvanginum í kvöld.

Rooney skoraði tvö mörk fyrir United og var mjög ógnandi í sóknarleik liðsins.

„Rooney var stórkostlegur í kvöld og um leið og við fórum að koma boltanum meira til hans þá batnaði leikur okkar til muna," sagði Ferguson sem var brjálaður yfir leik sinna manna fram að jöfnunarmarki Paul Scholes seint í fyrri hálfleik.

„Við gerðum alltof mikið af mistökum í fyrri hálfleiknum. Þeir fengu óskabyrjun á leiknum og við urðum stressaðir því síðasta skiptið sem við komum á San Siro-leikvanginn þá fengum við á okkur tvö mörk snemma leiks. Við náðum samt að vinna okkur vel út úr því og vinna leikinn. Þetta er hins vegar langt frá því að vera búið og við þurfum að mæta ákveðnir til leiks í seinni leiknum og klára dæmið," sagði Ferguson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×