Helga Margrét Þorsteinsdóttir úr Ármanni var rétt í þessu að tryggja sér sigur í 400 metra hlaupi á Meistaramóti Íslands í frjálsíþróttum sem fram fer um helgina í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal.
Helga Margrét var á tímanum 55,52 sekúndur en Guðrún Arnardóttir á Íslandsmetið í greininni á tímanum 53,14 sekúndur sem hún setti í Gent árið 2000.
Stefanía Valdimarsdóttir var í öðru sæti á tímanum 57,20 sekúndur og Arna Stefanía Guðmundsdóttir varð þriðja á tímanum 57,82 sekúndur.
Hjá körlunum vann Snorri Sigurðsson úr ÍR í 400 metra hlaupi en Leifur Þorbergsson úr Fjölni varð annar og Kristján Rögnvaldsson UMSE.
Í 60 metra hlaupi karla vann Óli Tómas Freysson úr FH en Arnór Jónsson úr Breiðabliki varð annar og Magnús Valgeir Gíslason úr Breiðabliki varð þriðji.
Hjá konunum vann Linda Björk Lárusdóttir í 60 metra hlaupi en Hafdís Sigurðsdóttir úr HSÞ varð önnur og Þórhildur Helga Guðjónsdóttir varð þriðja.